Félagsstarf 2025

Félagsnefnd GO hefur einna helst reynt að halda úti félagsstarfi utan opnunartíma golfvallarins og það hefur fallið meira í hendur starfsmanna GO að stofna til viðburða síðustu ár. Ef einhver áhugasamur félagsmaður vill rífa þetta starf í gang er velkomið að hafa samband við skrifstofu GO og við tökum því fagnandi.

Að venju er kvennanefnd GO virk og hefur sinnt hlutverki sínu einstaklega vel og nefndarkonur gera grein fyrir starfi nefndarinnar í eigin skýrslu hér á síðunni.

  • Jólaboð Golfklúbbsins Odds fyrir börn í Urriðaholtsskóla hefur verið árlegur viðburður hér í golfskálanum undanfarin ár. Í þeim hópum sjáum við árlega fjölgun ungra félagsmanna sem eru í starfinu hér og gaman að fylgjast með þeirri fjölgun. Tenging við Urriðaholtið er mikilvægur hluti í okkar starfi.
  • Veturinn var mildur og fallegur oft á tíðum hér og það skapaðist óvænt svigrúm til lagningar á skíðagöngubraut hér þegar áhugasamur íbúi í Urriðaholti hafði samband við okkur í lok janúar. Brautin var lögð hér á leifturhraða í samstarfi við Útilíf og vakti athygli og hingað mættu skíðagöngugarpar af öllum getustigum. Vonandi verður veturinn góður og alveg öruggt að þetta verður skoðað að nýju og frábært fyrir félagsmenn og aðra að njóta svæðisins á veturna.
  • Kennanefndin stóð fyrir púttmótaröð kvenna í aðstöðu GKG eins og undanfarin ár, mótin voru 8 talsins í ár og þangað var vel sótt að venju.
  • Við stóðum fyrir golfhermamóti í mars 2025 sem var ágætlega sótt um 45 keppendur mættu í Golfhöllina og nutu dagsins með okkur.
  • Börn og unglingar ásamt stórum hópi foreldra og þjálfara fóru í æfingaferð barna og unglingastarfsins til Costa Ballena í apríl. Alls voru á svæðinu 74 galvaskir kylfingar af öllum getustigum og þar áttu allir frábæra daga.
  • Vorfundur GO fór fram í apríl og var vel sóttur. Þar er almennt farið yfir komandi starfsár og það var spenna í loftinu fyrir komandi sumri og flott mæting á fundinn.
  • Hreinsunardagurinn var haldinn 1. Maí og þar var slegið mætingarmet í þátttöku og frábært að hér séu viljugir félagsmenn til staðar til þess að gera svæðið okkar betra og fallegra.
  • Aðal félagsviðburðir ársins eru svo mest tengdir okkar mótahaldi sem fer á flug þegar við höfum opnað. Metþátttaka var í meistaramóti GO þetta árið og einnig fjölgun liða í Collab liðamótaröð GO. Konur í Oddi stóðu fyrir flottu opnu móti sem var vel sótt af okkar eigin félagskonum og hefðbundin mót eins og lokamót kvenna og bændaglíman eru gífurlega vinsæl á hveru ári.
  • Lokaviðburður í félagsstarfi í ár var svo í frábær Haustgolfferð GO á Fairplay í Andalúsíu. Þar voru um 60 félagsmenn, frábær fararstjórn og virkilega gott og þægilegt svæði. Farið er að huga að golfferð haustið 2026 og það verður vonandi klárt hvert farið verður í upphafi nýs árs.