Barna & unglingastarf GO 2025

 

Árið 2025 var áframhald á öflugu og vaxandi barna- og unglingastarfi Golfklúbbsins Odds. Góð þátttaka iðkenda var á viðburðum, golfmótum og æfingastarfinu í heild sinni yfir árið. Þjálfunin í barna- og unglingastarfinu er stöðugt að þróast í betri átt og árið bauð upp á aukin tækifæri fyrir iðkendurna. Góður árangur var hjá okkar iðkendum í sumar á mótum. Hrafnhildur Guðjónsdóttir sneri aftur til starfa úr fæðingarorlofi í lok sumars en í hennar fjarveru hafði Auður Björt Skúladóttir haldið utan um starfið sem íþróttastjóri. Þeim til halds og trausts störfuðu Íris Lorange Káradóttir og Arnór Snær Guðmundsson ásamt nokkrum góðum aðstoðarmönnum sem komu að starfinu eftir þörfum.

Á þjóðhátíðardegi Íslendinga þann 17.júní útskrifuðust Hrafnhildur, Auður, Íris og Arnór öll úr PGA-golfkennaranáminu og voru mikil tímamót þegar öll fjögur bættu við sig fagmenntun sem nýtist vel í áframhaldandi uppbyggingu starfsins.

Æfingarnar héldu sér með uppteknum hætti yfir árið en með nokkrum breytingum og nýjungum. Eftir hefðbundið vetrarfrí í október var formlega farið af stað með nýjan framtíðarhóp, 16 manna hóp iðkenda sem æfir aukalega tvisvar í viku í Golfsvítunni og í Miðgarði. Almennir æfingahópar æfðu samkvæmt hefðbundnu skipulagi, tvisvar í viku yfir veturinn á hefðbundnum golfæfingum ásamt samhæfingar/styrktaræfingum á laugardagsmorgnum sem Íris hefur séð alfarið um. Yfir sumartímann eru styrktaræfingarnar í pásu og inn kemur ein æfing í hverri viku yfir sem tileinkuð er spili á Ljúflingi.

Iðkendur í framtíðarhópi hafa mætt aukalega tvisvar sinnum í viku, á miðvikudögum í Golfsvítuna í Hafnarfirði í tveimur hollum og á fimmtudögum á morgunæfingu kl. 06:45 í Miðgarði. Þar er æft 15-65 metra högg á litlum gervigrasmottum sem Tryggvi vallarstjóri útbjó og klippti fyrir okkur. Mikill metnaður hefur verið frá því í nóvember að mæta á æfingarnar og gaman að sjá framfarir hjá krökkunum.

Samskipti og skipulag voru áfram stutt af XPS kerfinu og reyndust skila góðum árangri. Á árinu var einnig tekið í notkun nýtt forrit, Coach Now, fyrir framtíðarhópinn. Forritið auðveldar sveiflurannsóknir, samskipti um framfarir og utanumhald um myndbandagreiningar og einkatíma, sem foreldrar og iðkendur geta fylgst með í rauntíma.

Golfleikjanámskeið sumarsins voru sjö talsins og nutu gríðarlegra vinsælda. Alls tóku 228 börn, fædd 2011–2019, þátt í námskeiðunum og hefur þessi þátttaka aldrei verið meiri. Kennsla og leikir einkenndu námskeiðið ásamt því að mikil efirvænting var eftir seinasta degi námskeiðanna þar sem endað var með pylsuveislu og spili á Ljúflingi sem skapaði góða stemmningu.

Æfingaferð ársins 2025 var farin til Costa Ballena á Spáni í annað sinn og var hún sú fjölmennasta til þessa. Ferðin var farin vikuna 6.-13.apríl. Alls fóru 34 iðkendur, 34 foreldrar, þrír þjálfarar og þrír aðstoðarmenn með í ferðina. Auður Björt, Íris og Arnór sáu mest um kennslu og utanumhald. Við hlið þeirra sem stoð og stytta voru meðal annars Giovanna Steinvör Cuda og Svavar Geir Svavarsson ásamt afrekskylfingnum Arnari Daða Svavarssyni. Ferðin tókst afar vel og var greinileg framför frá fyrra ári í leikni, aga og ástundun iðkenda. Í ferðinni stóð barna- og unglingaráðsmaðurinn Gréta Halldórsdóttir fyrir fjölbreyttri skemmtidagskrá og hélt olympíuleika sem vöktu mikla lukku meðal bæði barna og foreldra. Að öllu óbreyttu verður farið í svipaða ferð vorið 2026.

Aðstaða til æfinga yfir veturinn byggir áfram á áherslu á samstarf við aðra aðila þar sem klúbburinn hefur ekki inniaðstöðu á eigin vegum yfir vetrartímann. Æfingar fóru því fram í Kórnum í Kópavogi, Golfsvítunni í Ögurhvarfi og Hafnarfirði sem og íþróttahúsinu Miðgarði. Í sumar var tekin í notkun ný gervigraspúttflöt á æfingasvæðinu, sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Flötin hermir mjög vel eftir náttúrulegu grasi og lengir tímabilið sem hægt er að æfa stuttaspil við raunhæfar aðstæður. Notkun hennar hefur þegar sýnt fram á gæði og stöðugleika og mun nýtast vel í framtíðinni.

Skráðir virk­ir iðkendur í barna- og unglingastarfinu voru um 47 talsins árið 2025 og hélt aldursdreifingin áfram að líkjast fyrri árum, þar sem 10–12 ára aldurshópurinn var fjölmennastur. Við erum einungis með iðkendur sem eru 14 ára og yngri eins og staðan er núna en frábært að sjá hópinn eldast með okkur í gegnum árin. Framtíðarhópurinn bættist formlega við í nóvember og hefur þegar haft jákvæð áhrif á frammistöðu og markmiðasetningu íþróttastarfsins.

Mótahald sumarsins var fjölbreytt og vel sótt. Í fyrsta sinn var haldin sameiginleg mótaröð Odds og Keilis þar sem þrjú mót fóru fram á Ljúflingi og þrjú á Sveinkotsvelli. Þátttaka var mjög góð, yfirleitt 30–35 keppendur í hverju móti. Á sama tíma hélt Golfklúbburinn Oddur úti sínum hefðbundnu mótum. Vormót fór fram til að byrja sumarið og sumarmótið fór fram í júlí í blíðskaparveðri, alls tóku 13 þátttakendur þátt í hvort sinn en þátttakendur í Haustmótinu voru 33 sem léku í góðu veðri á fyrri 9 holum Urriðavallar. Meistaramót barna- og unglinga fór fram 5.–8. júlí og mættu 9 iðkendur til leiks á Urriðavelli og 26 á Ljúflingi. Frammistaða þátttakenda var mjög góð og er greinilegt að leikhraði og færni í mótaumhverfi hefur batnað enn frekar frá fyrra ári.

Á árinu náðist stór áfangi þegar stúlknaflokkur Odds í 12 ára og yngri tryggði sér Íslandsmeistaratitil í Íslandsmóti Golfklúbba í júní. Þessi árangur endurspeglar bæði faglega þjálfun og góða ástundun iðkenda og er mikill hvatning fyrir áframhaldandi uppbyggingu keppnisstarfsins.

Boðið var upp á fleiri viðburði en áður og fór hópur frá Oddi á Golfhátíðina á Akranesi, viðburð fyrir kylfinga 11–14 ára sem setur fjölbreyttar golfþrautir og félagslega uppbyggingu í forgrunn. Þar nutu krakkarnir leiðsagnar frá þjálfurum, afrekskylfingum og starfsfólki golfsambandsins og fengu mikla hvatningu til áframhaldandi æfinga.

Lokahóf barna- og unglingastarfsins var haldið 2. október og var vel sótt. Farið var yfir helstu árangra sumarsins, boðið var upp á pizzaveislu og afhent voru verðlaun fyrir heildarárangur í mótum sumarsins. Einnig voru veitt sérstök heiðursverðlaun fyrir mestu forgjafalækkun, efnilegasta kylfinginn í bæði drengja- og stúlknaflokki, bestu ástundun og kylfing ársins. Að lokinni dagskrá var farið niður á Ljúfling og sumrinu slitið með ljósaboltaspili í myrkri sem skapaði skemmtilega og eftirminnilega stemmningu.

Í barna- og unglingaráði sátu árið 2025 Anna Sigríður Ásgeirsdóttir, Páll Þórir Pálsson, Giovanna Steinvör Cuda og Gréta Halldórsdóttir. Í foreldraráði störfuðu áfram Auður Björt Skúladóttir, Páll Þórir Pálsson, Ingvar Steinn Birgisson og Fanney Björk Tryggvadóttir auk tveggja nýrra fulltrúa: Halldórs E. Sigurðssonar og Ólafs Ágústs Ingasonar.

Heildarniðurstaða ársins er að barna- og unglingastarf Golfklúbbsins Odds stendur sterkar en nokkru sinni. Árangur, fagmennska, félagslegt andrúmsloft, gott samstarf við foreldra og vaxandi áhugi í nærumhverfi skapar jákvæðan grundvöll fyrir áframhaldandi þróun. Með öflugu þjálfarateymi, fjölbreyttum æfingum, vaxandi keppnishópi og góðri þátttöku í mótum horfir starfið björtum augum til ársins 2026.

Vinningshafar í Meistaramótinu 2025

Unglingar Urriðavöllur U14 ára Stúlkur

  1. Sæti: Emilía Sif Ingvarsdóttir
  2. Sæti: Katrín Lilja Karlsdóttir
  3. Sæti: Ásta Sigríður Egilsdóttir

Unglingar Urriðavöllur U14 ára Drengir

  1. Sæti: Sveinbjörn Viktor Steingrímsson
  2. Sæti: Eiríkur Bogi Karlsson
  3. Sæti: Aron Snær Pálsson

Börn á Ljúflingi

14 ára og yngri stelpur

  1. Sæti: Katrín Lilja Karlsdóttir
  2. Sæti: Júlía Bergrún Pétursdóttir
  3. Sæti: Petra Guðríður Sigurjónsdóttir

12 ára og yngri drengir

  1. Sæti: Garðar Ágúst Jónsson
  2. Sæti: Aron Snær Pálsson
  3. Sæti: Eyþór Kári Stefánsson

12 ára og yngri stelpur

  1. Sæti: Ásta Sigríður Egilsdóttir
  2. Sæti: Emilía Sif Ingvarsdóttir
  3. Sæti: Hekla Ólafsdóttir

10 ára og yngri drengir

  1. Sæti: Jóhann Karl Ingvarsson
  2. Sæti: Ingvar Ingvarsson

10 ára og yngri stelpur

  1. Sæti: Hildur María Karlsdóttir

 

Við þökkum fyrir frábært og viðburðaríkt ár í barna og unglingastarfinu. Æfingaárið hefur farið fram úr okkar björtustu vonum eins og í fyrra. Við hlökkum til næstu ára og vonumst til að gera æfingastarfið enn betra og líflegra

Áfram GO!

Kær kveðja,
Hrafnhildur, Auður, Íris, Arnór og allir sem að starfinu komu.