Skýrsla mótanefndar

Vorið byrjaði vel veðurfarslega og var hitinn í maí að meðaltali um 9 gráður. Því miður kom völlurinn okkar ekki vel undan vetri svo allt mótahald frestaðist og má segja að fyrri hluti sumars hafi litast af því að finna holustaðsetningu sem hafði minnst áhrif á leik félagsmanna.

Mótanefnd sér um innanfélagsmót sem eru aðeins fyrir félagsmenn á meðan klúbburinn sjálfur heldur utan um opin mót og kemur að mótum fyrirtækja og annara hópa sem spila á vellinum okkar fagra.

Opnunarmótið fór fram laugardaginn 17. maí og tóku tæplega 170 félagsmenn þátt í mótinu og var spilað inná allar flatir vallarins en um leið og móti var lokið voru stangir færðar útaf flötum á nokkrum holum til að hjálpa þeim að ná sér eftir veturinn.

Holukeppnin er haldin árlega og er um einstaklings mót þar sem tveir leikmenn spila á móti hvor öðurm og sá aðili sem vinnur hverja viðureign heldur áfram í næstu umferð en hinn fellur úr keppni.  Keppt er í kvenna og karlaflokki og þegar einn aðili stendur uppi í hvorum flokki spila þeir um holumeistaratitil Odds. Í ár fór lokaleikurinn fram á milli Andra Orra Heiðaberg Steindórssonar og Guðrúnar Símonardóttur.  Sigurvegari ársins 2025 er Andri Orri Heiðaberg Steindórsson og óskum við honum til hamingju með titilinn.

Collab mótaröðin átti að hefjast 3. júní en var frestað vegan ástands vallarins og fór því fyrsta umferðin fram 23. júní sem er mun seinna en  tíðkast. Alls voru leiknar 5 umferðir en loka umferðin gilti tvöfalt eins og undanfarin ár þar sem 3 bestu mótin telja til stiga. Í ár tóku 37 lið þátt. Fyrir loka umferðina gátu nokkur lið unnið mótaröðína svo framarlega sem það lið myndi landa tvöföldum sigri í loka umferðinni og aðrir stæðu sig ekki eins vel. Þegar öllu var lokið stóðu Prinsarnir uppi sem sigurvegarar.  Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Odds um lokastöðuna.  https://www.oddur.is/urslit-i-collab-lidakeppni-go-2025/

Stærsta og skemmtilegasta mót hvers ár er Meistaramótið sem fór fram dagana  5.-12. júlí, þar spila félagsmenn með félögum sem eru á svipuðum stað í golfinu og mælum við heilshugar með að félagsmenn taka þátt.  Í ár voru aftur slegin met í fjölda þátttakenda sem voru 379, sem skiptist að fullorðnir voru 349, unglingar 4 og börn 26. Vil ég sérstaklega þakka sjálfboðaliðum sem ræstu út og dómurum sem voru á staðnum og gættu að því að keppendur færu eftir golfreglunum.  Að loknum leik voru það Hrafnhildur Guðjónsdóttir og Rögnvaldur Magnússon sem enduðu sem klúbbmeistarar Odds árið 2025.

Lokamót ársins var að sjálfsögðu Bændaglíman þar sem Baldur og Svavar voru bændur og settu upp skemmtilegar þrautir við og á flötum en leikið var bæði á Urriðavelli og Ljúflingi. Ræsa þurfti aðeins seinna út þar sem frost var um morguninn en sólin lét sjá sig og allir skemmtu sér konunglega.  Að loknu móti stóð Baldur uppi sem sigurvegari bændaglímunnar eftir frábæra spilamennsku bláa liðsins.

Að lokum vil ég þakka frábært samstarfs með stjórnarmönnum undanfarin ár í mótanefnd og áður í kvennanefnd auk samskipta við sjálfboðaliða í minni og stærri mótum sem hafa farið fram á fallega vellinum okkar en nú er komið að öðrum að taka við af mér sem formaður mótanefndar. Ég hef verið hluti af starfi klúbbsins sem sjálfboðaliði í um 16 ár og því komið að því að aðrir taki við.  Hver veit nema maður bjóði fram krafta sína síðar en í bili:  Takk fyrir allt það verður gaman að hitta ykkur á vellinum næsta sumar.

 

Kær kveðja

Laufey Sigurðardóttir.

Fráfarandi formaður mótanefndar Odds