Árið 2025 var viðburðarríkt og frábært, fullt af golfi og gleði.

Í kvennanefndinni voru Árný Davíðsdóttir formaður, Guðbjörg Eva Halldórsdóttir gjaldkeri, Edda Kristín Reynis, Guðbjörg Eiríksdóttir, Helga Jónsdóttir, Líney Sveinsdóttir, Kristrún Jóhannsdóttir og Sigrún Waage.

Árið hófst að venju með Púttmótaröðinni þann 21. janúar og var hún með hefðbundnu sniði. Spilað var í átta skipti í Íþróttamiðstöð GKG. Mikil ánægja var með að hittast, pútta og spjalla en alls tóku 59 konur þátt. Í lokin á púttmótaröðinni var haldin afhending verðlauna og boðið var upp á veitingar og drykki.

Vinkvennamót GO og GK var haldið 4. júní á Urriðavelli og 11. júní á Hvaleyrarvelli. Að móti loknu héldu veðurbarðar hressar konur í skála Keiliskvenna og fögnuðu góðu vinkvennamóti með ljúffengum mat og verðlaunaafhendingu.
Keiliskonur unnu bikarinn með 650 punktum á móti 619 punktum hjá Oddskonum.
Glæsilegt opið kvennamót var haldið 25. júlí, 94 konur tóku þátt í golfmótinu og mættu beint í lúxus brunch eftir mótið, þar sem afhent voru verðlaun og átt notalega stund. Þátttakendur úr öðrum klúbbum voru himinlifandi með Urriðavöllinn, móttökurnar og allt fyrirkomulag og bíða spenntar eftir næsta opna kvennamóti.
Lokamót og lokahóf var síðan haldið í lok starfsársins þann 6. september og slegin voru met í þátttöku. Alls 131 kona tók þátt í lokamótinu og 105 konur mættu í lokahófið þar sem mikil gleði ríkti fram eftir kvöldi, með ljúffengum veitingum, verðlaunaafhendingu, söng og dansi.
Stebbi Hilmars og hljómsveitin Englarnir slógu vel í gegn.
Vinningar, prinsessuverðlaun og skorkortaverðlaun sliguðu gluggakistur og borð á lokahófi Oddskvenna.
Söfnun á fuglum og örnum var með óhefðbundnu sniði en eingöngu var tekið við fuglum og örnum á Urriðavelli, 230 fugla-og arnarmiðum var skilað inn yfir sumarið. Á lokahófinu var Dídí Ásgeirsdóttir krýnd fugla drottning Oddskvenna 2025, en hún var alls með 13 fugla.
Við þökkum kærlega öllum þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem styrktu okkur með því að gefa vinninga þetta árið.
Við í kvennanefndinni viljum þakka öllu okkar dásamlega fólki í Oddinum fyrir skemmtilegt samstarf og frábæra samvinnu. Og TAKK allar Oddskonur fyrir frábært ár og þátttöku í viðburðum ársins. Við hlökkum mikið til golf ársins 2026 með ykkur.
Fyrir hönd kvennanefndar Golfklúbbsins Odds þökkum við kærlega fyrir okkur, Árný Davíðsdóttir
