Ég vil þakka öllum félögum í Golfklúbbnum Oddi fyrir samstarfið á nýliðnu starfsári sem var hið viðburðarríkasta á vettvangi stjórnar frá því að ég settist þar 2016. Fyrsta verkefni stjórnar á starfsárinu var að finna nýjan framkvæmdastjóra í stað Þorvaldar Þorsteinssonar. Niðurstaðan var að ráða Harald Haraldsson fyrrverandi framkvæmdastjóra Víkings í það starf. Ég vil þakka Þorvaldi samstarfið í gegnum árin sem hefur verið mjög ánægjulegt í alla staði.
Það voru miklar væntingar um að við fengjum frábæran golfvöll eftir mildan vetur. Það varð nú ekki raunin og nú vitum við hvað hugtakið ,,vetrardauði” merkir. Starfsmenn með stuðningi stjórnar einhentu sér í að koma grasvexti í gang, meðal annars með nýjum búnaði sem fékkst afhentur með stuttum fyrirvara. Ég tel rétt að segja það hér að það var skýrt í huga stjórnarinnar að við værum með rétta fólkið til að lagfæra ástandið, og að við berum til þess fullt traust. Vil ég þakka Tryggva Ölveri Gunnarssyni vallarstjóra og hans fólki sem hefur ávallt lagt allan sinn kraft í að gera vallarsvæðið hið glæsilegasta, í oft óhagstæðri íslenskri veðráttu. Það er miður að ítrekað er fólk að slá golfbolta til þeirra og stundum fyrir skipulagðan opnunartíma vallarins. Við þessu munum við bregðast næsta sumar, enda algerlega óásættanlegt að félagsmenn setji starfsmenn klúbbsins í hættu.
Sem fyrr fundaði stjórnin á formlegum stjórnarfundum ellefu sinnum á árinu og verið samhent í sínum störfum og þakka ég þeim þeirra störf á árinu. Margir óformlegir fundir og/eða verkefnafundir voru haldnir til að vinna málin áfram. Mikil vinna var lögð í ráðningu nýs framkvæmdastjóra og á árinu var endurnýjaður samningur GO við Golfklúbb Oddfellowa sem krafðist verulegrar yfirlegu og vinnu, en meira um það síðar. Allir stjórnarmenn sem eru í kjöri sækjast eftir endurkjöri og trúi ég því að það sé merki um einhuga og samhenta stjórn.
Í fyrsta sinn í langan tíma varð einhver breyting á mannahaldi hjá GO líkt og áður hefur komið fram en kjarni starfsfólks heldur áfram.
Hrafnhildur Guðjónsdóttir og Auður Skúladóttir hafa leitt uppbyggingu íþróttastarfs Golfklúbbsins Odds af miklum krafti. Nú í haust luku þeir Phill Hunter og Rögnvaldur Magnússson starfi sínu fyrir klúbbinn. Við þökkum þeim kærlega fyrir allt þeirra starf, fyrir að laga hjá okkur slæsið, húkkið, fá fallegri sveiflu og allan félagsskapinn í gegnum árin. Á heimasíðu ársskýrslu GO má nú finna skýrslur frá Barna- og unglingaráði ásamt afreksnefnd og hvet ég félagsmenn að kynna sér þær. Þar eru einnig skýrslur frá öðrum starfsnefndum GO ásamt yfirliti yfir Einherja á árinu og frá upphafi. Í meistaramóti GO voru þátttakendur í fullorðinsflokkum 343 og fengu margir keppendur blíðskaparveður. Klúbbmeistari karla er Rögnvaldur Magnússon og klúbbmeistari kvenna er Hrafnhildur Guðjónsdóttir.
Það er miður að Garðabær hefur hingað til ekki viljað koma til móts við Golfklúbbinn Odd með aðstöðu til vetraræfinga. Börn og unglingar sem æfa hjá okkur eru núna á þremur mismunandi stöðum og með tilheyrandi skipulags vandræðum fyrir þjálfara, foreldra og iðkendur. Börn úr Urriðaholti stunda sínar æfingar á vegum Golfklúbbsins Odds í Kópavogi og Hafnarfirði. Bæjaryfirvöld hafa enn, sem fyrr, tækifæri til að gera betur og þarf ekki mikið til.
Ég vísa aftur í skýrslu barna- og unglingaráðs og afreksnefndar um árangur keppnissveita GO á árinu.
Fjöldi fullorðinna félagsmanna er nokkuð stöðugur en með vaxandi barnastarfi hefur yngstu aldurshópunum fjölgað í klúbbnum. Eins og áður segir eru rúmlega fimmtán hundruð væntanlegir félagar á biðlista. Þessi langi biðlisti er ekki einungis til vitnis um það góða starf sem hér er unnið heldur einnig um þann ofurvöxt sem golfíþróttin hefur verið í þessi síðustu ár. Sú þróun, að mjög stór hópur bíður þess að spila hjá okkur golfvöllinn kallar á að við aðlögum reksturinn að því. Þar sem við trúum því að það styttist í stækkun vallarins munum við taka upp gjald fyrir veru á biðlistanum. Gjald þetta mun að stærstum hluta renna upp í inntökugjald viðkomandi en það gjald tókum við upp fyrir tveimur árum. Þannig fáum við réttari stöðu á biðlistanum og gerum okkur tilbúin til að mæta stækkuninni þegar af henni verður.
Kvennanefnd, mótanefnd og Barna- og unglingaráði, færi ég sérstakar þakkir fyrir þeirra störf á árinu. Við sjáum nú eftir Laufeyju Sigurðardóttir sem hefur óskað eftir að stíga til hliðar sem formaður mótanefndar. Hennar starf hefur verið ómetanlegt síðustu árin en í Golfklúbbnum Oddi er mikil félagsauður og trúi ég því að við finnum verðugan arftaka.
Áframhaldandi aukning í golfíþróttinni hér á landi endurspeglaðist í aukinni aðsókn að golfvellinum og æfingasvæðið var algerlega fullt allt sumarið og á álagstímum er ómögulegt að bæta við þjónustu. Frá opnun til 15. október 2025 voru leiknir 46.160 hringir á Urriðavelli í samanburði við 43.086 hringi 2024. Áfram var ræst út á fyrsta og tíunda teig núna í lok sumars sem heppnaðist vel og er sannarlega komið til að vera. Við munum þó ekki hafa það fyrirkomulag að vori enda fer golfvöllurinn strax í fulla nýtingu.
Um fimmtán hundruð manns eru nú á biðlista eftir að fá að ganga í klúbbinn en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hversu mörgum verður boðin aðild nú í fyrstu atrennu.
Umferð utanaðkomandi golfbíla á svæðinu hefur verið vaxandi síðustu ár sem hefur m.a. neikvæð áhrif á nýtingu bílastæða, þá eru flestir þessir bílar knúnir bensíni með tilheyrandi mengun. Þetta er ekki einungis vandamál á okkar golfvelli eins og þið hafið kannski séð í fréttum. Á nýliðnu sumri var tekin upp sú regla að komi menn með sína eigin bíla þarf að greiða gjald. Því miður gekk ekki vel að koma þessari reglu á en það er ljóst að óheft aðgengi utanaðkomandi golfbíla að svæðinu gengur ekki upp til lengdar. Ný stjórn mun þurfa að skoða þessi mál fyrir komandi ár.
Áfram var unnið að endurbótum á fremri teigum og var nýr teigur á 16. braut tekinn í notkun síðla sumars. Þá unnu starfsmenn að því að koma upp svæði þar sem gras til að bæta skemmdir í grínum verður ræktað. Nú rétt fyrir aðalfund sá Garðabær svo um að malbika göngustíginn milli 9. og 18. brautar en við höfum lengi beðið eftir þeirri framkvæmd. Verkefnin sem unnið er að núna, eru meðal annars, nýr fremsti teigur á 17. holu, áframhaldandi rafvæðing og uppsetning sláttuþjarka. Þá hafa göngustígar við 15. holu verið lagfærðir.
Nú hefur áætlun um frekari rafvæðingu svæðisins verið samþykkt og vinna starfsmenn að því að undirbúa lagningu strengja um fyrri níu holurnar til að koma þar fyrir fleiri sláttuþjörkum. Því fylgir nokkur kostnaður og er gert ráð fyrir honum í rekstaráætlun næsta árs. Það er nokkur hindrun að heimtaug golfvallarsvæðisins annar ekki núverandi notkun og erum við meðal annars að skoða uppsetningu sólarorkubúnaðar en veruleg verðlækkun þess búnaðar gerir það að verkum að birtuorka er orðinn raunverulegur valkostur. Þá fékk golfklúbburinn styrk upp á 1,5 milljón til þessa verkefnis frá Orkusjóði en unnið er að undirbúningi og niðurstaðan ekki ljós.
Urriðavöllur er sannarlega einn besti golfvöllur landsins og Golfklúbburinn Oddur einn sá eftirsóttasti af þeim sem eru að velja sér golfklúbb. Það er stefna núverandi stjórnar að viðhalda því forskoti sem við teljum okkur hafa. Í sumar var tekin upp sú aðferð að félagar hefðu einn mánuð til að ráðstafa fjórum rástímum. Eftir fyrsta sumarið með þessari leið virðist sem hún sé til bóta. Sú fjárhagsáætlun sem lögð verður fyrir síðar á fundinum gerir ráð fyrir að bætt verði við fólki í þjónustu við kylfinga og vallareftirlit.
Það er mikilvægt að góður og öruggur rekstur sé á Golfklúbbnum Oddi. Vil ég þakka Haraldi Haraldssyni framkvæmdastjóra og forvera hans Þorvaldi kærlega fyrir árangurinn og samstarfið á árinu. Hagnaðurinn er í samræmi við áætlun en vegna ákvæða í nýjum samningi við GOF eru afskriftir umtalsvert hærri. Við förum frá því að vera komin á yfirdrátt í uppgjöri í það að ganga á hann um miðjan desember fram í janúar þegar félagsgjöld fara að skila sér að nýju. Er þetta í samræmi við áeggjan félagsmanna á síðasta aðalfundi en rekstraráætlun næsta árs gerir ráð fyrir að ekki þurfi að ganga á yfirdrátt að ári liðnu.
Í samstarfi við GOF voru framkvæmdir og fjárfestingar á síðasta ári fyrir tæplega 40 milljónir króna. Sjálfvirknivæðing æfingasvæðisins hefur sannarlega skilað sínu en álagið þar var þó svo mikið, að ekki hafði undan. Helstu fjárfestingar í búnaði voru sáningavél, nýr valtari og traktor en sá eldri var orðinn verulega dýr í rekstri. Sá nýi kostar með öllum búnaði um 14 milljónir og hefur það fram yfir hinn eldri að geta keyrt inn á grín. Búnaður í eigu GO og GOF er samtals að núvirði um 400 milljónir og þarfnast reglulegrar endurnýjunar fyrir utan að enn er ekki á svæðinu allur sá búnaður sem þarf. Treystum við á samstarf við aðra golfklúbba þegar svo ber undir. Vil ég þakka sérstaklega nágrönnum okkar í GKG fyrir aðstoðina í vor en samstarfið við þau hefur alltaf verið gott.
Nú er það orðin regla að hagnaður er af rekstri golfklúbbsins. Á þessu ári aukum við verulega framlegð rekstrarins og er ástæða þess gríðarleg aukning í aðsókn að æfingasvæði og Ljúfling. Þá má benda á árangur starfsmanna við endurnýjun samstarfssamninga sem skilar umtalsverðum tekjuauka. Allt þetta aukna umfang kallar einnig á viðbótar kostnað í viðveru starfsmanna og viðhaldi. Gjaldkeri stjórnar mun fara yfir reikninga klúbbsins síðar á fundinum.
Í lok starfsársins var gengið frá nýjum samstarfssamningi við GOF um afnot af golfvellinum, fasteignum og búnaði í þeirra eigu. Mikil vinna fór í að klára þennan samning sem ég get því miður ekki sagt að sé góður fyrir svæðið, golfvöllinn né félagsmenn í Golfklúbbnum Oddi. Gjald það sem greitt er hækkar úr tæpum 40 milljónum í 55 milljónir og sá hluti sem ekki kemur til endurfjárfestingar í svæðinu hækkar úr 19, 5 milljónum í 27,5 milljónir eða úr 15 þúsund á félagsmann í 21 þúsund. Þá var einnig krafa um að GO gæfi eftir stóran hluta af sínum eignum til GOF en niðurstaðan varð að við afhendum landeiganda svæðisins borholuna sem við höfum til vatnsöflunar. Borholan er fengin með eina framkvæmdastyrknum sem Golfklúbburinn Oddur hefur fengið frá sveitarfélaginu Garðabæ, en varla verður þessi gjörningur til að örva frekari styrki úr þeirri átt. Sá hluti af samningnum sem sátt er um, er að 50% af hagnaði Golfklúbbsins Odds verði lagður til hliðar inn á framtíðarreikning sem nýttur verði til stækkunnar golfvallarins. Samningur þessi er til tveggja ára þar sem nú færumst við nær stækkunaráformum golfvallarins. En enn á eftir að semja um hvernig rekstarábatinn af stækkun vallarins skiptist.
Ég vil ljúka þessari skýrslu með því að þakka starfsmönnum golfklúbbsins fyrir vel unnin störf og öllum þeim sjálfboðaliðum sem vinna óeigingjarnt starf í þágu klúbbsins. Ég vil þakka meðstjórnendum mínum fyrir samstarfið og ykkar vinnu. Ég er þakklátur fyrir að hafa haft ykkur með mér í liði á árinu sem nú er að líða en það var okkur ekki auðvelt.
Stjórn Odds þakkar samstarfið á árinu og óskar félagsmönnum sínum gæfu og gleði á nýju ári og þakkar fyrir ánægjulegar samverustundir á árinu sem er að líða.
f.h. stjórnar GO,
Kári Sölmundarson
